Lynghóll, Jarðlangsstöðum

08.03.2012 03:58

Jarðlangsstaðir.




      Bærinn Jarðlangsstaðir stendur ekki langt frá Langá.  Þetta er landnámsjörð (sjá Egilssögu) og næstum því jafn langt milli fjalls og fjöru.
Jörðin liggur norður að Langá.  Hún er um það bil 5 km. á lengd og um 3 km. á breidd.  Lönd sem liggja að jörðinni eru þessi; að vestan er Litla-Brekka og Stóra-Brekka, að sunnan er Hamar, Lækjarkot og Brennistaðir og að austan er Laxholt og norðaustan er Stangarholt.

     Jörðin er í Borgarhrepp, upp með Langá, norðaustan við Ánabrekku.  
Upplýsingar um örnefni gaf Þorleifur Erlendsson kennari sem ættaður er frá Jarðlangsstöðum.  Hann lét lesa handrit Ara Gíslasonar fyrir sig þ. 29.03.1967 og gerði athugasemdir og viðbætur við það.  Þorleifur er fæddur á Jarðlangsstöðum árið 1876 og var þar fram undir tvítugsaldur.

      Nú skulum við athuga merkin og fara sólarsinnis.  Hér um bil í háaustur frá bænum úti í landshorni er einkennilegasti steinn sem Þ.E. hefur séð.  Hann heitir Söngsteinn og er öðru vísi en allir aðrir steinar, enda getið í sóknarlýsingum.  Hann er eins og bolla eða kúskel á hvolfi í laginu, sléttur og allt önnur bergtegund en grjótið í kring.  Það er blágrýti en í þessum stein er eins og sambland af móbergi, dóleríti og fl.  Gæti hugsast að þetta væri loftsteinn.  Söngsteinn er hann nefndur af því að ef slegið er á hann, gefur hann frá sér einkennilegan tón.  Virðist hann vera holur að innan.
Þessi steinn hefur frá alda öðli verið merki milli fjögurra jarða, Stangarholts, Jarðlangsstaða, Laxholts og Brennistaða.  Steininn er austan við svonefnda Korthóla.  Þaðan er sjónhending í stapa sem heitir Háistapi.

     Ef farið er sólarsinnis frá Söngsteini, verða ýmis örnefni fyrir manni.  Flestir ásar þar bera greinileg merki ísaldar, lág holt og klettaborgir.  Flest liggja þau í sömu átt, eins og dregið væri strik eftir halla landsins til suðvesturs, ávala holt flest skógi vaxin með flóasundum á milli. Frá Söngsteini er fyrst fyrir manni til vesturs ás nefndur Korthóll, samnefndur stærri klettaás í Laxholtslandi.  Þar var byggð áður fyrr.  Þessi Korthóll er ekki ósvipaður heygalta í lögun, vaxinn smákjarri.  Árið 1832 þegar afi Þ.E. kom hér var þar þykkur skógur en var höggvinn upp.  Þess næst af Korthólum eru lágir ásar sem kallaðir eru Skuggaásar, samhangandi ásadrög, nú vaxin smákjarri en mun hafa verið áður þykkur skógur.  Þá taka við tvö vötn á merkjum sem heita Þverlækjarvötn.  Annað þeirra er í Brennistaðalandi.
     Skammt austan af Háastapa er tjörn sem heitir Tannatjörn.  Getur þar verið dregið af nafni Tanna sem var ríkur maður á Ferjubakka.  Úr þessari tjörn rennur lækur, Tannalækur, eftir endilöngu landinu í mörgum bugðum en tekur svo á sig skarpan alnboga og rennur út í Langá.
Neðan við Háastapa eru tveir langir ásar samhliða, Tannás og Langás.  Flóasund liggur milli Tannás og Korthóla sem heitir Tannaveita.  Um hana rennur Tannalækur.  Rétt áfast við þessa ása eru nokkuð háar klettaborgir tvær, sem nefnd eru Kletthólar, Syðri-Kletthóll og Nyrðri-Kletthóll og standa eins og álfaborgir upp úr flóanum.  En frá Kletthólum og ofan að svo nefndum Þverlæk er Tóftás, oft var sett þar saman hey.  Þverlækur rennur þvert fyrir úr Þverlækjarvötnum og í Tannalæk.  Næst fyrir neðan Þverlæk í vestur er gríðar mikill ás vaxinn þéttum skógi.  Þar var fyrr mikil kolagerð.  Þessi ás heitir Dömp, mjög gamalt nafn.  Þessi ás er meðfram Tannalæk að sunnan.  Þétt við lækinn er klettaborg sem heitir Sjónarhóll og annar hóll litlu austar sem heitir Litli-Sjónarhóll.  
     Hinum megin við Tannalæk gegnt Alexarás eru þrjú lág, skógivaxin holt, nefnd Neðstabót, Miðbót og Efstabót.  En hinum megin við Tannalæk og lengra norður á bóginn eru þessir ásar samhliða Dömp, Miðás og Myrkás.  Þessir ásar hafa verið vaxnir þykkum skógi fram á fyrri tíma, nú smákjarr en Þ.E. ræktaði þar stykki.
Þegar hér er komið vestan til í Dömp er komið í rétta stefnu við Þverlækjarvötnin sem eru í suðaustur.  Höldum svo til vesturs og lítum í kringum okkur.  Fyrir vestan Þverlækjarvötnin eru flói vestur af Háfsvatni sem heitir Háfsflói, hinn efri.  
Svo hverfum við aftur að Dömp.  Þaðan hér um bil bein lína í suðvestur eru skógi vaxnir ásar, nefndir Stangarásar, allt suðaustan við Tannalæk og ná vestur að Háfsvatni.  Samhliða þeim er lágur ás semn heitir Alexarás.
      Þá er áfram til vesturs meðfram Háfsvatni.  Hinum megin, norðvestan við Tannalæk eru hagahús frá Jarðlangsstöðum eða Stekkurinn.  Vestur frá Stekk eru lágar klappir sem heita Klappir, við Tannalæk.  Skammt þaðan fyrir ofan í stefnu út, suðvestur við Myrkás eru Selhólar.  Þá hverfum við aftur að Stangarásum meðfram Háfsvatni.  Þar vestur af eru Háfsklettar.  Nokkrir ásar eru þar samhliða.  Einn af þeim lítur út eins og hár á færeysku skipi.  Vestur af Háfsklettum er einkennileg klettaborg sem nefnd er Skilklettur.   Þar eru merki mót Litlu-Brekku.

      Nú breytum við um stefnu, höldum til norðvesturs með merkjum í átt til Langár.  Samhliða Háfsklettum eru skógivaxin ásadrög sem heita Hrossabrekkur.  Mjótt sund aðskilur þær frá Þrándarás.  Milli Hrossabrekkna og Háfskletta er Spóastapi, lítill og kringlóttur stapi.  Annar ás samnefndur honum er fyrir neðan merkin, sem þá heitir Brekku-Þrándarás. Í Brekkulandi er einkennilegur klettur, Þrándarklettur með skál ofan í, þar sem sagt er að fjármaður á Borg hafi bælt féð og bjargað því þann mikla fellisvetur Klaka árið 1802.
Áfram í sömu átt að Langá lækkar landið og þar vestur við á merkjum er ófær flói er heitir Tjarnarflói.  En nú breytir Tannalækur um stefnu og rennur þá til norðvesturs út í Langá.

     Á milli Tannalækjar og Tjarnarflóa eru þrír lágir skógarásar, líkir Þrándarás í lögun og heita þeir Nautatögl.  Milli þeirra og Langár heita Tannalækjarhólar.          Þetta eru stórir hólar skógi vaxnir rétt við merkin.  Þá er komið vestur að Langá í klofann milli Tannalækjar og Langár.  Landið meðfram Langá frá Nautatöglum eða Tannalæk upp að Bæjarlæk er nefnt Tunga og takmarkast að vestan og suðvestan af Tannalæk að nokkru leiti.  Örnefni í Tungu eru þessi:

     Meðfram Langá upp undir Bæjarlæk heita Ytri-Árás og Syðri-Árás.  Þá liggur annar ás, Jóhannesarás frá Tannalæk og samhliða honum kemur svo Tunguskógur.  Áfast við hann án nokkura merkja, upp að Bæjarlæk, er Helluskógur.  Efst í honum eru sléttar klappir sem nefndar eru Hellur.
 
Þá víkjum við okkur til suðurs og þá verður fyrir okkur hóll líkur Þjóðleikhúsinu og er nefndur Miðmundarhóll.  Þetta er klettaborg með ávalabrúnum og þar fyrir suðaustan er langur ás, austur af Miðmundarhól með sömu stefnu og lögun og Tunguskógur og heitir Grjótbrúarás.  Er þá stutt suður að fyrrnefndum Stekk.  Grjótbrúarás á trúlega nafn sitt af því að fyrrum voru 12 og 13 ára drengir, er báru grjót í húfum sínum ofan í keldu og nefndu Grjótbrú.  Þessi brú hélt bílum.  Þetta voru Jóhann og Guðmundur í Stangarholti.

     Þá liggur vegarslóði heim að bæ til norðvesturs frá Stekk og að bæ, var áður þjóðvegur.  Meðfram Langá er láglendi, nefnt einu nafni Flói.  En norðan vert við bæ er Heyholt, stakur hóll.  Meðfram Tannalæk sunnan við bæ er nefnt Lágaskógur og er þá örstutt sund suður á Myrkás er fyrr er nefndur.  En fyrir austan Myrkás eru Hrútásar og er þá stutt í Háastapa.
 
     Bæjarlækurinn rennur úr tjörn sem heitir Kýrtjörn.  Lítill hóll er við tjörnina sem heitir Kýrhóll.  Skógarásar þar fyrir norðan, norðan fyrir lækinn, eru nefndir Kýrtjarnartögl, fyrir ofan Lágastíg.  Fjárhúsin voru á túnhalanum.  Þá er Vörðuás. Flóasund er milli hans og Lágaskógar og Árskógar og Vörðuás.

     Athugandi er að áttavísarnir eru vafasamir hér en til að rugla þar engu er þetta óbreytt frásögn Þorleifs.

Fyrir sunnan Kýrtjörn er flói sem heitir Kýrflói.  Um hann renna kvíslar sem falla í bæjarlækinn.  Móti, sunnanverðu við Kýrflóa, heitir Kolaás.

     Byrgislág er neðanvert við Árskóg við Langá, eins og fjárrétt í laginu, klettabelti sitt hvoru megin við, aðallega að austanverðu.  Það er endirinn á Árskógnum.  Byrgisholt er þar fyrir neðan , lágt holt.  Þar er nú veiðihús fyrir Langá og nefnist Langárbyrgi og er á bökkum Langár við Hvítsstaðahyl í landi Jarðlangsstaða.

     Langá er ein af bestu og fallegustu laxveiðiám landssins með 93 skráða veiðistaði.  Áin á upptök sín í Langavatni sem er um 36 km frá ós árinnar en áin fellur í sjó vestan við Borgarnes.  Stangaveiði á sér langa sögu í Langá, lengri en almennt þekkist í sögu laxveiða á Íslandi.  Jarðlangsstaðir liggja að miðsvæði Langár.


   

                                 
                                    Stafrófsskrá yfir örnefni í Jarðlangsstaðalandi.


                                  Alexarás                                 Litli-Sjónarhóll
                                  Árskógur                                 Miðárás
                                  Byrgisholt                               Miðbót
                                  Byrgislág                                Miðmundarhóll
                                  Bæjarlækur                             Myrkás
                                  Dömp                                  Nautatögl                                                 
                                  Efstabót                                 Neðstabót
                                  Fjárhúsás                               Olnbogi
                                  Flói                                        Selhólar
                                  Fuglastapi                              Sjónarhóll
                                  Grjótbrúarás                           Skilklettur
                                  Háfsflói                                  Skuggaásar
                                  Háfsklettar                             Spóastapi
                                  Háfsvatn                                Stangarásar
                                  Háistapi                                Stangarlækur
                                  Hellur                                    Stekkur
                                  Helluskógur                           Syðri-Árás
                                  Heyholt                                 Söngsteinn
                                  Hrossaþrekkur                       Tannaás
                                  Hrútsásar                              Tannalækjarhólar
                                  Jóhannesarás                        Tannalækur
                                  Klappir                                  Tannatjörn
                                  Kletthólar                              Tannaveita
                                  Kolaás                                  Tjarnarflói
                                  Korthólar                               Tóftás
                                  Kýrflói                                   Tunga
                                  Kýrhóll                                  Tunguskógur
                                  Kýrtjarnartögl                         Vörðuás
                                  Kýrtjörn                                 Ytri-Árás
                                  Langá                                    Þrándarás
                                  Langiás                                 Þverlækjarvötn
                                  Lágaskógur                            Þverlækur   



                                                      Jarðlangsstaðir.     
                                
                                                      (nokkrar viðbætur)


     Þann 24.10.1974, var örnefnalýsing Jarðlangsstaða, sem Ari Gíslason samdi, yfirfarin af Erlendi Jónssyni.  Hann fæddist á Jarðlangsstöðum þann 28. september árið 1896 og var þar til ársins 1905 og bjó þar frá árinu 1926 til ársins 1942.  
    Erlendur gerði nokkrar athugasemdir  sem Sölvi Sveinsson skrásetti.

     Það er ekki rétt að jörðin hafi verið í eyði í nokkur ár.  Hún var það einungis árið 1943, árið eftir að Erlendur flutti þaðan. 
 
     Norðan við Kýrtjörn er Kýrflói sem nær að landamerkjum milli Stangarholts og Jarðlangsstaða.  Austan við Kýrflóann er Kolás en að vestan eru Kýrtjarnartögl  Vestan  þeirra er Merkjaholt.

     Sunnan við Kýrtjörn er Kýrhóll, vestan vert við Bæjarlækinn, sem úr henni rennur en að austan við lækinn er Lági-Skógur.
Nyrst á Vörðuás er klettadrangi sem nefnist Trýni.
Norðan við Hrútsása er Hrútstjörn, er Hrútsstapi, milli Háastapa og Koláss sem fyrr er nefndur.

     Við syðri enda Árskógar, sunnan undir klettunum við Langá er Byrgislág.  Þar eru rústir gamals bygis.
     Norðvestur frá Jarðlangsstöðum er Móholt.  Næsti ás fyrir sunnan túnið er Hádegisás.  Norðan við Háfskletta er Þverholtið.
     Á hlið við Tunguskóginn austur við Tannalæk eru tveir skógarásar sem heita Bætur.  Í túninu á Jarðlangsstöðum er klettaborg sem Kastali heitir.
    

    (Þorgeir jarðlangur bjó fyrstur á Jarðlangsstöðum.  Álfgerðisholt var byggt til forna en var lengi í eyði.  Árin 1917 - 1945 stóð þar nýbýli en núna er jörðin í eyði.)
                                                        
                                                       
                                                      Jarðlangsstaðir


                                                       Athugasemdir.

                                                Aðalheiður Erla Jónsdóttir skráði.

     Einar Jóhannesson, Jarðlangsstöðum, kom á Örnefnastofnun 15 des. 1987 og gerði þá eftirfarandi athugasemdir við örnefnaskrá Jarðlangsstaða og svaraði nokkrum spurningum.  Hann hóf búskap á Jarðlangsstöðum árið 1954.

     E.J. hefur ekki heyrt Fuglastapa nefndan en segir að Jóhannes á Ánabrekku e.t.v. vita betur.  (Fuglastapi finnst ekki í skrá A.G. en er í stafrófsskránni, hefur e.t.v. fallið burt).

     Byrgislág er nú í daglegu tali nefnd Byrgislaut.

     Neðstabót, Miðbót og Efstabót eru einu nafni kallaðar Bætur og nefndar svo í daglegu tali

     Sp. 3: Vötnin (Þverlækjarvötn) eru tvö, annað alveg í Brennistaðalandi.

     Sp. 4: Tannatjörn er í Stangarholtslandi.  Guðmundur bóndi í Stangarholti gerði skurð úr henni í Tannalækinn og var tjörnin þannig ræst fram og þurrkuð upp.  Það var árið 1953, þ.e. sama ár og Guðmundur hóf búskap í Stangarholti.  E.J. segir tjörnina nú nánast vera drullupytt.  Hann segist hafa heyrt þá sögn að maður að nafni Tanni hafi drepið sig í læknum og gæti það skýrt nafnið.

     Sp. 5: Jú það sést enn fyrir tóftum (í Tóftás)  Þar var hlaðið upp kringum hey sem geymt var þar á veturna en síðan flutt heim (á ís?).

     Skógur hefur mikið eyðst í landi Jarðlangsstaða og landið allt breyst mikið; land mikið verið ræst fram.  Skurður hefur nú verið gerður á merkjum Jarðlangsstaða og Tungulækjar og Álfgerðisholts.




                                       
                                    Spurningar Örnefnastofnunar (mörgum ósvarað).


    1.    Er vitað um tilefni nafnsins Korthólar? Er alltaf talað um þá saman eða er Korthóll örnefni sem notað er í daglegu tali.  Sést fyrir býlinu við Korthóla?

    2.    Er vitað hvers vegna Skuggaásar heita svo?

    3.    Er alltaf talað um Þverlækjarvötn saman, þ.e. í fleirtölu?

    4.    Hvernig er Tannatjörn?  Er veiði í henni?  Eða í Tannalæk?  Hvernig eru Tannás og Langás?  Hvernig liggja þeir? 

    5.    Sést fyrir tóftum í Tóftás?  Eftir hvað eru þær þá?  Er e.t.v. átt við heytóft? 

    6.    Gott væri að fá nánari lýsingu á ásunum, holtunum og hólunum í landareigininni, t.d. legu, stærð, gróðurfari.  Einfalt riss eða uppdráttur af legu þeirra og afstöðu væri vel þegið.

    7.    Gott væri að fá upplýsingar um gróðurfar í landareigininni.  Hefur það breytst hin síðari ár?  Hvar var rifið hrís?  Hefur skógur eyðst?

    8.    Sjást merki um kolagerð í Dömp?

    9.    Er víðsýnt frá Sjónarhóli?

   10.    Er vitað um tilefni nafnanna Myrkás (er hann kjarrivaxin nú), Stangarásar, Alexarás?

   11.    Er veiði í Háfsvatni?

   12.    Heita hagahúsin á Jarðlangsstöðum, Sekkur?  Sést fyrir stekk þar?  Er vitað hvenær hætt var að færa frá á Jarðlangsstöðum?

   13.    Var sel nálægt Selhólum?  Ef svo var, sést þá fyrir því enn?  Er vitað hvenær síðast var haft í seli á Jarðlangsstöðum

   14.    Hvernig eru Háfsklettar?  Gott væri að fá nánari lýsingu á ásnum, sem lítur út eins og "hár" á færeysku skipi?

   15.    Er Skilklettur nefndur svo vegna legu sinnar á mörkum?

   16.    Hvernig er Þrándarás?  Er vitað hvers vegna hann er nefndur svo?

   17.    Er vitað um tilefni nafnanna Spóastapi, Tjarnarflói (hvernig er hann?) Jóhannesarás, Heyholt, Lágaskógur, Kýrtjörn (hvernig er hún?) Stangarlækur?

   18.    Eru Tannalækjarhólar margir?

   19.    Hvernig eru Tunguskógur og Helluskógur?

   20.    Er Grjótbrú örnefni?

   21.    Eru Hrútsásar margir?  Er vitað um tilefni nafnsins?

   22.    Hvar er/var túnhallinn? 

   23.    Hvernig er Vörðuás?  Er/var varða á honum?  Er vitað hvaða tilgangi hún hefur þjónað?

   24.    Gott væri að fá skýringar á áttatáknunum, ef þær eru etthvað "vafasamar", eins og komist er að orði í skránni.

   25.    Var kolagerð í Kolás?  Sjást þá einhver merki um hana?  Er hann skógi vaxinn? Er Kolás ekki sá sami og Kolaás?

   26.    Var/er Byrgislág nýtt sem rétt eða aðhald?

   27.    Lágiskógur eða Lágskógur?
  
   28.    Hvar eru rústir byrgisins við/í Byrgislág?  Hvers konar byrgi er átt við?

   29.    Líkist Kastalinn kastala?

   30.    Var tekinn mór nálægt Móholti?  Gott væri að fá nánari upplýsingar um mótekju í landareigninni, svo og um torfristu, s.s. hvar mór var tekinn, hversu góður mórinn var, hve margar stungur niður, hve mikill mór var tekinn, hvenær hætt var að taka mó, hvar reiðingur var tekinn og hvernig hann var notaður?

   31.    Tjarnarflói eða Tjarnaflói?

   32.    Í landamerkjalýsingunni eru nefnd nokkur nöfn, sem ekki koma fram í örnefnaskránni, s.s. Háfslækur, Grjóttangi (örnefni?) Jarðlangsstaðaskuggásar (Skuggásar í daglegu tali?) Jarðlangsstaðaþrándarás, Laugakelda, Álfgerðisholt, Slóðarhóll (tilefni nafnsins?).
    Ef þessi örnefni eru innan landareignarinnar eða á merkjum, væri gott að fá lýsingu þeirra og staðsetningu.  Hvaða landamerki gilda við Háfsvatn, milli Lækjarkots og Jarðlangsstaða?

   33.    Koma fram í lýsingunni öll örnefn sem þekkt eru í landareigninni?  Eru öll örnefnin, sem skráð eru í lýsingunni, innan landareignarinnar?

    Ath.  E.t.v. væri heppilegast að semja nýja lýsingu.





                                          
     
                                     Ábúendur Jarðlangsstaða og fl.
 (í vinnslu ólagfært.) 

        Árið 1703 bjuggu á Jarðlangsstöðum þau:  Þórður Bjarnason bóndi, Ásta Magnúsdóttir kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir verkhjú, Jón Jónsson vinnuhjú, Halla Magnúsdóttir vinnuhjú, Guðrún Magnúsdóttir vinnuhjú, Erlendur Bjarnason, Jón Erlendsson barn og Ingibjörg Erlendsdóttir barn.

      Skv. manntali frá árinu 1816, bjuggu á Jarðlangsstöðum þau:  Jón Jónsson, bóndi 54 ára, kona hans Guðrún Einarsdóttir, húsfrú 52 ára, Jón Jónsson, systursonur bóndans 18 ára, Sigurður Bjarnason, systursonur bóndans 14 ára, Steinunn Sigurðardóttir, 47 ára, Guðrún Sighvatsdóttir 16 ára og Ragnhildur Sigurðardóttir, niðursetningur 10 ára. 

        Árið 1835 voru íbúar á Jarðlangsstöðum þau:  Erlendur Guðmundsson, bóndi 64 ára ekkill, Guðrún Einarsdóttir, bústýra, ekkja 65 ára, Ástríður Erlendsdóttir, 34 ára dóttir bóndans, Þorleifur Erlendsson, sonur bóndans 14 ára, 
       Jón Björnsson, bóndi 32 ára, Ragnhildur Erlendsdóttir húsfrú 25 ára og barn þeirra Björn Hóm Jónsson (0)ára.  Einnig bjuggu þá á Jarðlangsstöðum móðir Jóns bónda, Hólmfríður Jónsdóttir, 68 ára. Kristján Björnsson, vinnumaður 40 ára, Jóhanna Erlendsdóttir, vinnukona 16 ára og Guðmundur Gestur Pálsson, 13 ára vikadrengur.

        Árið 1840 bjuggu á Jarðlangsstöðum hjónin Guðmundur Erlendsson, 49 ára og Jóhanna Jónsdóttir 47 ára ásamt börnum sínum þeim Jóhanni Guðmundssyni, 21 árs, Guðrúnu Guðmundsdóttr, 18 ára, Guðmundur Guðmundssyni, 17 ára, Erlendi Guðmundssyni, 15 ára, Runúlfi Guðmundssyni, 12 ára og Sigurði Guðmundssyni, 9 ára. 

        Árið 1845 bjuggu á Jarðlangsstöðum þau:  Guðmundur Erlendsson húsbóndi, 53 ára og kona hans Jóhanna Jónsdóttir 51 árs, ásamt börnum sínum Guðrúnu 23 ára, Guðmundi 22 ára, Runúlfi 16 ára og Sigurði 14 ára.  Tökubarnið Sigríður Sigurðardóttir 11 ára var þar einnig ásamt húskonunni Setzelíu Þorsteinsdóttur 41 árs ekkju. 

        Árið 1850 voru íbúar Jarðlangsstaða þau Guðmundur Erlendsson, bóndi 58 ára og Jóhanna Jónsdóttir kona hans 56 ára og börn þeirra þau Guðrún 28 ára, Erlendur 24 ára og Sigurður 18 ára.  Einnig bjuggu þá á Jarðlangsstöðum Sigríður Sigurðardóttir 16 ára fósturbarn, Guðríður Jónsdóttir tökubarn 2 ára og sveitalimurinn Magnús Magnússon 46 ára.

        Árið 1855 var tvíbýli á Jarðlangsstöðum.  Á Jarðlangsstöðum 1 bjó Guðmundur Erlendsson bóndi 62 ára ásamt konu sinni Jóhönnu Jónsdóttur ásamt börnum sínum þeim Guðrúnu 33 ára og Sigurði 24 ára, einnig var þar tökubarnið Guðríður Jónsdóttir 7 ára.
        Á Jarðlangsstöðum 2 bjó Erlendur Guðmundsson, bóndi 30 ára og kona hans Ragnhildur Guðmundsdóttir 34 ára.  Hjá þeim bjó vinnudrengurinn Hjálmur Sigurðsson, 21 árs. 

        Árið 1860 bjuggu á Jarðlangsstöðum 1 þau Guðmundur Erlendsson, bóndi 68 ára, Jóhanna Jónsdóttir, kona hans 66 ára og börn þeirra þau Guðrún 38 ára og Sigurður 29 ára. Þar bjuggu einnig þau Guðrún Jónsdóttir, tökubarn 13 ára og vinnumaðurinn Hjálmur Sigurðsson, 27 ára.
        Á Jarðlangsstöðum 2 voru Erlendur Guðmundsson, bóndi 34 ára og kona hans Ragnhildur Guðmundsdóttir, 38 ára með börnum sínum þeim Ástríði Erlendsdóttur 5 ára og Guðmundi Erlendssyni 4 ára. 
       Sigríður Þorbjörnsdóttir vinnukona 40 ára bjó þar einnig ásamt barni sínu Valgerði Jónsdóttur 4 ára.   Þar bjó líka Guðrún Árnadóttir vinnustúlka 17 ára.

        Árið 1870 voru ábúendur á Jarðlangsstöðum þau, Erlendur Guðmundsson, bóndi 44 ára og kona hans Guðlaug Jónsdóttir, 36 ára og börn þeirra þau Ragnhildur Erlendsdóttir 4 ára og Erlendur Erlendsson, (0) ára.  Þar bjuggu einnig eldri börn Erlendar bónda þau Ástríður Erlendsdóttir 14 ára og Guðmundur Erlendsson 13 ára.
        Vinnumaðurinn Sæmundur Jónsson, 25 ára, vinnukonan Guðlaug Sigurðardóttir, 38 ára, vinnustúlkan Guðbjörg Brandsdóttir, 18 ára, niðursetningurinn Kristín Einarsdóttir 69 ára og tökubarnið Sigríður Guðnadóttir, 7 ára bjuggu einnig á Jarðlangsstöðum þetta árið. 

         Jón Björnsson og Ragnhildur Erlendsdóttir.

         Jón Björnsson er fæddur 6. októmber 1858 á Seljalandi í Hörðudal í Dalasýslu.

         
        Árið 1890 bjuggu á Jarðlangsstöðum þau Erlendur Guðmundsson, bóndi 64 ára ekkill, Guðrún Einarsdóttir, 65 ára ekkja, ásamt börnum Erlendar þeim Ástríði 34 ára og Þorleifi 14 ára.  Einnig bjuggu þá á Jarðlangsstöðum Jón Björnsson bóndi 32 ára, Ragnhildur Erlendsdóttir (dóttir Erlendar bónda), bústýra kona hans 25 ára, ásamt Birni Hólm Jónssyni (0) ára barni sínu . Jón og Ragnhildur voru þá ógift.  
Móðir Jóns bónda, Hólmfríður Jónsdóttir 68 ára ekkja bjó þar líka ásamt vinnumanninum Kristjáni Björnssyni, 40 ára, vinnukonunni Jóhönnu Erlendsdóttur, 16 ára og Guðmundi Gesti Pálssyni, 13 ára vikadreng.  

        Árið 1901 var fjölmenni búandi á Jarðlangsstöum. Jón Björnsson bóndi 43 ára (f. 6.okt 1858, d. 3. sept. 1948) og konan hans Ragnhildur Erlendsdóttir 36 ára (f. 19. 0kt.1865, d. 20. feb. 1954) og höfðu þá gift sig. Börn þeirra þau Björn Hólm Jónsson 11 ára, Guðlaug Jónsdóttir 10 ára, Hólmfríður Jónsdóttir, 8 ára  Erlendur Jónsson, 5 ára, Auður Jónsdóttir, 3 ára, Anna Jónsdóttir, 1 árs og Gunnar Jónsson, f. 16.04.1901. Fósturbarn þeirra Hallur Lífmann Hallsson, 11 ára.  
        Erlendur Guðmundsson, bóndi, ekkill 75 ára, faðir Ragnhildur og börn hans þau Ástríður Erlendsdóttir, 45 ára, Þorleifur Erlendsson, 25 ára lausamaður, bjuggu þar líka ásamt Hólmfríður Jónsdóttir, 78 ára, móðir Jóns Bónda. Guðrún Sæmundsdóttir, 25 ára vinnukona og vinnumaðurinn Júlíus Guðberg Kristjánsson, 37 ára. 

        Árið 1905 flytja Jón og Ragnhildur að Ölvaldsstöðum

        Jón Finnsson, fæddist á Jarðlangsstöðum árið 1760, hann varð bóndi og bjó á Hjaltabakka í Húnavatnssýslu.

        Þorleifur Erlendsson kennari, fæddur á Jarðlangsstöðum 5. mars 1876 og bjó þar til tvítugs aldurs.
        Foreldrar hans voru Erlendur Guðmundsson og Guðlaug Jónsdóttir, dóttir Jóns Þorleifssonar og Herdísar Sæmundsdóttur frá Brennistöðum í Flókadal.
Guðlaug móðir hans andaðist þegar hann var á 3 árinu en faðir hans tók ráðskonu, Vilborgu Guttormsdóttur, hina ágæstustu konu sem annaðist börnin og heimilið af mikill kostgæfni.  Í æsku Þorleifs um 1880-90, voru mestu harðinda- og hallærisár sem komið hafa hér á landi, einum þó mislingaárið 1882.  Þennan áratug náðu Ameríkuferðirnar hámarki. Á Jarðlangsstöðum var þó aldrei neinn skortur og nægur matur í búri, heimilið mannmargt og mikill gestagangur.  Þorleifur var komið til náms í harmonikuleik af sóknarnefnd Borgarkirkju árðið 1881 og gerðist hann organleikari í Borgarkirkju og Álftártungukirkju á árunum 1893-97 er hann flutti alfarinn til Seyðisfjarðar þangað sem 4 systkyni hans voru flutt. 
Þorleifur gerðist kennari, fyrst sem heimiliskennari og síðar farkennari og jafnhliða kennslunni stundaði hann búskap á Jarðlangsstöðum á sumrum til ársins 1921.

          Dagana 21 - 26. júní 1946, var 9. þing S.Í.B. (Samband íslenskra barnakennara) haldið í Reykjavík. Þorleifur Erlendsson, kennari frá Jarðlangsstöðum sendi þinginu bréf, þar sem hann gefur S.Í.B. kost á afnotum lands síns úr jörðinni Jarðlangsstöðum í Mýrasýslu, til þess að kennarar geti fengið þar land undir sumarbústaði og hvíldarheimili.  Þingið samþykkti eftirfarandi ályktun:
   "Fulltrúaþing S.Í.B. þakkar hið höfðinglega tilboð Þorleifs Erlendssonar í bréfi dags. 24. júní, þ.á.
Felur það stjórn sambandsins að svara bréfinu og einnig leita undirtekta kennara um hverjir þeirra vilji og geti notfært sér boð hans."

     (Ókunnugt er um hvort einhver hafi nýtt sér þetta boð Þorleifs Erlendssonar)
     

          Guðrún Helgadóttir fæddist á Jarðlangsstöðum á Mýrum 11. júní 1914 þar sem foreldrar hennar bjuggu en árið 1922  flutti fjölskyldan alfarin til Vestmannaeyja og bjó á Sólvangi.  Foreldrar hennar voru Jósefína Sigurðardóttir, f. 19. apríl 1892, d. 1971 og Helgi Jónsson, f. 27. febrúar 1891, d. 1943. Systur Guðrúnar eru: Kristín, f. 1918, Hólmfríður, f. 1921, Halldóra, f. 1922, d. 1993, Þrúður, f. 1925. Guðrún d. 14. júní 2000.

      Helga Finnsdóttir, fædd á Jarðlangsstöðum 16. júlí 1914, dáinn á Sauðárkróki 13. apríl 1996. Foreldarar Finnur Gíslason, smiður og Elísabet Sigurðardóttir.  Helga var þriðja af fjórum systkynum.

Guðrún Helgadóttir fæddist á Jarðlangsstöðum á Mýrum 11. júní 1914. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 14. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jósefína Sigurðardóttir, f. 19. apríl 1892, d. 1971 og Helgi Jónsson, f. 27. febrúar 1891, d. 1943. Systur Guðrúnar eru: Kristín, f. 1918, Hólmfríður, f. 1921, Halldóra, f. 1922, d. 1993, Þrúður, f. 1925. 

      Skarphéðinn Magnússon og Kristín Sigurlaug Kristjánsdóttir, f. 1896, d. 1983 bjuggu á Jarðlangsstöðum en fluttu að Dagverðarnes í Skorradal einhvern tímann eftir árið 1922/1926 en áður fæddist þeim sonurinn Magnús Skarphéðinsson, fæddur á Jarðlangsstöðum árið 1921, d. 1989.

        Auður Jónsdóttir fæddist 15. nóvember 1897 að Jarðlangsstöðum, Borgarhreppi, Mýrasýslu. Foreldrar hennar voru Jón Björnsson f. 1858, d. 1948, bóndi, sonur Hólmfríðar Jónsdóttur og Björns Kristjánssonar, bónda, Seljalandi Hörðudalshreppi. Móðir Auðar var Ragnhildur Erlendsdóttir, f. 1865, d. 1954, dóttir Guðlaugar Jónsdóttur, f. 1834, d. 1878 og Erlendar Guðmundssonar, bónda, Jarðlangsstöðum.

Jón og Ragnhildur eignuðust tólf börn. Tvö dóu í barnæsku en hin náðu fullorðinsaldri, þrír synir og sjö dætur.
Árið 1905  fluttust Jón og Ragnhildur búferlum frá Jarðlangsstöðum að Ölvaldsstöðum og þar ólst Auður upp með systkinum sínum.

Guðrún Eiríksdóttir, f. 21.ágúst.1865. d. 23.mars 1947 kaupakona. Hún var á mörgum bæjum og alls í 17 ár hjá Jóni og Ragnhildi, fyrst á Jarðlangsstöðum og síðan á Ölvaldsstöðum


        Erlendur Jónsson, f. 28. sept. 1896, var þar til ársins 1905.  Bjó þar síðan frá árinu 1926 til ársins 1942. 

        Erlendur sagði ætíð að "Menn vissu alltaf hvar sólin var."  Hann var þá að vitna til þess að á Jarðlangsstöðum í hans uppeldi voru engar klukkur. Og hann sagði: "Þó þykkt væri í lofti var eins og menn vissu alltaf hvar sólin var." 

        Sagt er að þegar afi hans Erlendur Guðmundsson á Jarðlangsstöðum kom í kaupstaðarferð í Borgarnes eitt sinn, vildi kaupmaður selja honum falleg innflutt kerti. Erlendur sagðist hafa kerti, bjó þau til heima. En þessi eru sérstaklega falleg, sagði kaupmaður. Og svarið var: "Já, ég gef nú ekkert fyrir það, því ég horfi á ljósið."

        Jarðlangsstaðir eru ein besta sauðfjárbújörð í Borgarfirði. Þar höfðu forfeður Erlends í móðurætt búið, Guðmundur Erlendsson langafi hans, sonur Erlends á Ánabrekku og Erlendur Guðmundsson afi hans og síðan foreldrar hans Ragnhildur Erlendsdóttir og Jón Björnsson. Þau Erlendur og Auður bjuggu góðu búi á Jarðlangsstöðum og bættu jörðina með þeim verkfærum sem þá voru tiltæk, skóflu og ristuspaða. Vafalítið hafa margir svitadroparnir fallið er unnið var hörðum höndum við jarðabætur og ræktun. Fátt segir af baráttu einyrkjans. Erlendur var hugmaður og vildi skila jörðinni betri en hann tók við henni. Þúfnakollarnir urðu að lúta í lægra haldi fyrir ristuspaðanum og land var brotið til ræktunar. Sauðfé átti Erlendur gott og landkostir hentuðu mjög til sauðfjárræktar.

Jarðlangsstaðir voru rómaðir fyrir vetrarbeit og þar er óvenju snjólétt. En mæðiveikin setti stórt strik í starfsferil sauðfjárbóndans og á stríðsárunum brugðu þau hjón búi og fluttu til Reykjavíkur þar sem Erlendur bjó til æviloka.

        Erlendur var góður hagyrðingur. Þessi vísa hans lýsir vel afstöðu hans þegar á móti blés:

        Þegar stirðnar strá á grund
        stormar þjóta um hauður,
        þá er okkar létta lund
        lífsins besti auður. 

        Jörðin var í eyði árið 1943.

        Árið 1933 var Gunnar Jónsson, bóndi á Jarðlangsstöðum, var í Framsóknarfélagi Borgfirðinga, og fór í framboði á flokksþingi Framsóknarmanna það árið.

        Jarðlangsstaðir voru lengi leigujörð og árið 1946 tóku Njáll Markússon, f. 18. des. 1913, d. 15. des. 1978 og kona hans Fríða Þorsteinsdóttir, f. 26. ágúst 1925, jörðina Jarðlangsstaði á leigu og hófu þar búskap með dótturina Klöru, f. 18. ágúst 1945.  Á Jarðlangsstöðum fæddist þeim dóttirin Þórdís f. 15. des.1946. Tveim árum seinna fluttu þau að  Vestri-Leirárgörðum í Leirársveit.
   
        Árið 1951 keypti Siggeir Ólafsson, húsasmíðameistari, f. 4. júní 1916, d. 25. sept. 1987, eyðibýlið Jarðlangsstaði árið 1951, endurreisti þá landvíðu beitarjörð og bjó þar til ársins 1954. Hann bjó áður á Hlíðarvegi í Kópavogi og rak þar trésmíðaverkstæði.  Ófyrirséðir erfiðleikar, sérstaklega heilablóðfall Ásdísar eiginkonu hans leiddu til þess að hann brá búi og flutti aftur í Kópavog þar sem Ásdís lést tveim árum síðar.  Hann byrjaði að reisa íbúðarhús það sem nú stendur á jörðinni.

        Árið 1954 kaupa Einar Jóhannesson, f.  2. des. 1915, d. 3. nóv. 2005 og Sigríður Bárðardóttir f. 3. júní. 1921,  Jarðlangsstaði. Þau eru bæði ættuð úr Álftaveri í V-Skaft. Einar frá Herjólfsstöðum og Sigríður frá Holti.  Sigríður Bárðardóttir fæddist í Holti í Álftaveri í V-Skaftafellssýslu 3. júní 1921. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 5. apríl 2016.

        Einar og Sigríður hófu búskap árið 1944 í Stafholti í Stafholtstungum í Mýrasýslu, þar sem þau bjuggu til ársins 1948 en fluttu þá að Hamraendum í sömu sveit. 
        Þau Einar og Sigriður fluttu að Jarðlangsstöðum árið 1954, ásamt fjórum dætrum sínum, Sigríði Báru f. 18. jan. 1947, Þuríði f. 15. nóv. 1949, Kristínu, f. 31. mars. 1952 og Fanneyju f. 17. okt. 1953.  Tíu árum síðar eignuðust þau soninn Jóhannes Guðmund f. 4. mars.1964.

Þegar Einar og Sigríður fluttu að Jarðlangsstöðum var jörðin búin að vera í leigu um skeið og hvorki var þar rafmagn, sími né rennandi vatn. Vegsamband lélegt og stundum ekkert.

Einar var mjög barngóður undir hrjúfu og hvössu viðmótinu og heilsaði öllum börnum eins.. stelpum með "sæl stelpa" og strákum með "sæll strákur".
 
Fjárglöggur var Einar mjög og mikill bóndi og kunni utanbókar nöfn allra, rúmlega 600 fjár sem hann hafði á húsi.

Þrátt fyrir harðan skráp á yfirborði hvíldi undir góður drengur sem ekkert mátti aumt sjá og var hann manna fyrstur til að aðstoða ef einhver átti um sárt að binda eða var í vanda staddur. Þá var ekki spurt um tíma eða annað sem sumir láta flækjast fyrir góðverkum.

Sagt var um Einar að allt sem hann sagði eða lofaði, stæði eins og stafur á bók. Hann mátti ekkert slæmt sjá eða vita af og aðstoðaði marga án þess að það færi hátt.  Sagði hann eitt sinn er hann var spurður, hvers vegna hann væri að veita peningalega aðstoða til manneskju sem hann vissi að gæti aldrei endurgeitt honum, sagði hann að engum kæmi við hvernig hann eyddi sínum fjármunum, það væri hans mál,  þannig var Einari rétt lýst. 





                               Veður og jarðlag á Jarðlangsstöðum og fl.  (í vinnslu).

Jörðin Jarðlangsstaðir stendur  í ca. 40 metra hæð yfir sjávarmáli og ca. 10 km fjarlægð frá sjó í Borgarfirði.


Loftslag á Jarðlangsstöðum er með töluverðum hitasveiflum.


Yfirhöfuð og oftast er gott verður á Jarðlangsstöðum í flestum áttum en besta veðrið er í austanátt. Þá kemur þurrt loft og yfirleitt hlýtt innan af hálendinu.
 

Akrafjall, Skarðsheiðin og Esjan þurrka loftið svo sunnanáttir eru líka góðar á Jarðlangsstöðum, samt má búast við stöku skúrum af og til í þeirri átt.
 

Norðaustan áttin er versta vindáttin en þá stendur nánast alltaf leiðinda vindnæðingur af Holtavörðuheiðinni og er sama hvort loftið er þurrt, hlýtt, blautt eða kallt.

 

Það rignir miklu minna á Jarðlangsstöðum en á flestum öðrum stöðum á landinu. 

 

Jarðvegur í Jarðlangsstaðalandi er hreinn mór sem nær niður á ca. 110 - 120 cm dýpi þar sem grjót og möl taka við, það er að öllum líkindum gamall jökulruðningur.

 

Talið er að Jarðlangsstaðajörðin standi á gömlu jarðhitasvæði þar sem útfellingar hafa þétt berggrunninn og af þeim sökum á vatn ógreiða leið niður í jarðveginn en safnast þess í stað fyrir við yfirborðið áður en það getur runnið burt. Þess vegna heita mýrarnar Mýrar.


 

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 781
Gestir í dag: 382
Flettingar í gær: 220
Gestir í gær: 155
Samtals flettingar: 50576
Samtals gestir: 11983
Tölur uppfærðar: 4.12.2024 20:01:04

Tenglar